Menntamálaráðuneytið hefur í erindi til borgarstjóra óskað svara við nokkrum spurningum varðandi húsin við Laugaveg 4 og 6. Farið er fram á að gögn og svör berist ráðuneytinu í síðasta lagi á morgun, 23. janúar.
Í ljósi þess skamma tíma sem menntamálaráðherra er ætlaður til þess að fjalla um málið, með tilvísun til lagaákvæða, er þess vænst að Reykjavíkurborg láti ráðuneytinu í té gögn og upplýsingar um eftirfarandi:
1. Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laga um húsafriðun ber byggingarfulltrúum að fylgjast með því að eigendur húsa leiti eftir áliti húsafriðunarnefndar og minjavarðar áður en leyfi er m.a. veitt til niðurrifs, sbr. 2. mgr. 6. gr.
Af þessu tilefni er óskað svara við því, hvort og þá með hvaða hætti Reykjavíkurborg hafi gætt þess að eigendum húsanna við Laugaveg 4 og 6 væri gerð grein fyrir því að leita þyrfti leyfis húsafriðunarnefndar til niðurrifs húsanna.
2. Ennfremur óskar ráðuneytið eftir því að Reykjavíkurborg upplýsi ráðuneytið um svör Byggingarfulltrúans í Reykjavík við bréfi húsafriðunarnefndar dags. 18. mars 2006, þar sem óskað eftir teikningum að fyrirhugðum byggingum að Laugavegi 4 og 6.
3. Í 4. gr. laga um húsafriðun er vísað til friðunar húsa og þar segir að friðun geti náð til nánasta umhverfis friðaðs mannvirkis og að friða megi samstæður húsa eins og þar er nánar lýst. Í þessu ljósi óskar ráðuneytið eftir því að Reykjavíkurborg lýsi afstöðu sinni til þess, hvort, og ef svo er, þá hvernig þær byggingar sem ætlunin er að byggja í stað umræddra bygginga samræmist friðun hússins að Laugavegi 2. Í þessu samhengi óskar ráðuneytið ennfremur eftir því að Reykjavíkurborg lýsi því hvernig hún sjái fyrir sér að reiturinn verði nýttur, m.a. í ljósi friðunar hússins að Laugavegi 2, komi til þess að menntamálaráðherra ákveði ekki að friða umrædd hús. Telur ráðuneytið brýnt, í ljósi þess að skipulagsyfirvöld bera ábyrgð á götumynd borgarinnar og að borgaryfirvöld hafa tekið undir tillögu húsafriðunarnefndar, að sjónarmið Reykjavíkurborgar komi fram varðandi þetta atriði.
Loks er þess farið á leit að borgaryfirvöld segi álit sitt á því hvort sá möguleiki sé fyrir hendi að gera breytingar á húsunum að Laugavegi 4-6 þar sem þau standa nú í samráði við húsafriðunarnefnd og eigendur, ákveði menntamálaráðherra friðun húsanna.