Rússneski stjórnmálamaðurinn Garrí Kasparov, sem lengi var stigahæsti skákmaður heims, skrifar grein um Bobby Fischer í nýjasta tölublað bandaríska fréttatímaritsins Time Magazine. Segir Kasparov m.a., að það hafi verið réttlátt að Fischer dvaldi síðustu æviár sín á Íslandi, þar hafi hann verið elskaður og dáður á besta mögulega hátt: sem skákmaður.
„Ég er oft spurður hvort ég hafi hitt eða teflt við Bobby Fischer. Svarið er nei, ég fékk aldrei tækifæri til þess. En þótt hann liti á mig sem hluta af hinni illu skákstofnun, sem honum fannst hafa svikið sig og rænt, þá þykir mér miður að hafa aldrei fengið tækifæri til að þakka honum augliti til auglitis fyrir það sem hann gerði fyrir íþróttina okkar.
Margt hefur verið skrifað um hvarf Fischers og andlega erfiðleika hans. Sumir hafa viljað kenna skákinni sjálfri um en það væru heimskuleg mistök. Það fylgir því áhætta að leggja allt í sölurnar í hverju því, sem menn taka sér fyrir hendur. Ég vil frekar minnast merkilegra afreka hans en andlegra harmleikja," segir Kasparov m.a.