Segist hafa verið vitni að giftingu Fischers og Watai

John Bosnitch og Miyako Watai á blaðamannafundi í Tókýó veturinn …
John Bosnitch og Miyako Watai á blaðamannafundi í Tókýó veturinn 2004. mbl.is/GSH

Kanadíski lögfræðingurinn og blaðamaðurinn John Bosnitch, sem vann að því á árunum 2004 og 2005 að fá Bobby Fischer lausan úr fangelsi í Japan, segir í bréfi til skákvefjarins Chessbase.com, að hann hafi sjálfur verið viðstaddur þegar Fischer og Miyoko Watai giftu sig og skrifað nafn sitt á giftingarvottorðið því til staðfestingar.

Tilefni bréfs Bosnitch er frétt í Daily Telegraph þar sem segir, að sumir úr vinahópi Fischers telji að útför hans í Laugardælakirkjugarði hafi verið ólögleg þar sem vafi leiki á að Watai hafi verið eiginkona Fischers. Hafi svo ekki verið hafi hún og Garðar Sverrisson ekki haft neinn rétt til að skipuleggja útförina án þess að leita samþykkis lögmætra fulltrúa dánarbús Fischers. Að auki gætu erfðamálin orðin flókin þar sem talið sé að Fischer hafi átt jafnvirði 180 milljóna króna á bankareikningi í Sviss.

Bosnitch segir í bréfinu, að þegar verið var að skipuleggja vörn Fischers í Japan hafi sá síðarnefndi fallist á, að tími væri kominn til að gera samband þeirra Watai opinbert en þau höfðu búið saman um árabil.

„Ég var karlkyns vottur að hjónabandinu og giftingarvottorðið er með nafni mínu á. Sú staðreynd, að Bandaríkin höfðu ógilt vegabréf Fischers með ólöglegum hætti var upphaflega hindrum í vegi þess, að fá japönsk stjórnvöld til að skrá hjónabandið en eftir að við héldum því fram að ólögleg haldlagning vegabréfs  bryti gegn þeim réttindum hans að gifta sig gáfu japönsk stjórnvöld á endanum út giftingarvottorð og skráðu þetta löglega samband," segir Bosnitch.

Hann segir að japönskum stjórnvöldum hafi raunar verið þetta skylt vegna þess að hægt var að sýna fram á, að eina ástæðan fyrir því að krafist var framvísunar vegabréfs við giftingu var sú að með því væri sýnt fram á sá sem vildi gifta sig væri sá sem hann segðist vera.  Slíkt hefði ekki verið nauðsynlegt í þessu tilfelli þar sem Fischer var í fangelsi vegna þess að japönsk stjórnvöld voru þess fullviss, að hann væri sá sem hann segðist vera. Þessi einfalda rökleiðsla hefði gert það að verkum, að japönsk stjórnvöld urðu að viðurkenna hjónabandið.

„Garðar Sverrisson og Miyoko Watai eru meðal þeirra þriggja opinskáustu og heiðarlegustu manneskja, sem ég hitti þá 9 mánuði sem við háðum hina lagalegu baráttu í Japan. Fischer var sú þriðja. Útförin í samræmi við óskir Fischers var án efa síðasta hefnd hans og undankoma frá hinum miskunnarlausu bandarísku fjölmiðlum og embættismönnun, sem eltu og ofsóttu hann heimshorna á milli. 

Megi skákmikilmennið loks hvíla í friði, eftir að hafa dáið frjáls á Íslandi, hugrökku landi hins sannarlega frjálsa manns," skrifar Bosnitch.

Grein chessbase.com

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka