Um 40 blaðamenn sóttu kynningarfund um íslensku hátíðina Iceland on the Edge sem hefst í Brussel í lok febrúar nk. og standa mun í fjóra mánuði. Dagskrá hátíðarinnar er tvíþætt. Annars vegar er íslensk menningardagskrá sem unnin hefur verið í samstarfi við Bozar, stærstu menningar- og listamiðstöð Belgíu og Ancienne Belgique, tónlistarhúsið í Brussel. Hins vegar verða íslenskir viðburðir undir formerkjum Iceland on the Edge, s.s. á sviði ferða- , ráðstefnu- orku og alþjóðamála.
Í Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins kemur fram að brátt vera birtar sjónvarpsauglýsingar og sjónvarpsþættir um Ísland, veggspjaldaherferðir og auglýsingar.
Á heimasíðu sendiráðs Íslands í Brussel má finna dagskrá hátíðarinnar.
Ríkisstjórnin stendur að baki hátíðinni í samvinnu við Reykjavíkurborg, Ferðamálastofu og Útflutningsráðs. Portus, Icelandair og Icelandair Cargo eru samstarfsaðilar verkefnisins en Landsbankinn er máttarstólpi hennar. Hátíðin er unnin að frumkvæði og undir stjórn sendiráðsins í Brussel/utanríkisráðuneytisins en verkefnið hefur verið í undirbúningi undanfarin tvö ár.