„Ég er að leggja saman tvo og tvo. Ég hef engar beinar sannanir fyrir þessu,“ segir Robert Wade, prófessor við London School of Economics og sérfræðingur í málefnum Kína. Hann telur mikinn áhuga kínverskra stjórnvalda á Íslandi vera tilkominn vegna mikilvægi legu Íslands ef siglingaleiðin yfir Norðuríshafið opnaðist á milli Norður-Kyrrahafs og Norður-Atlantshafs. Hann segir Kínverja hafa mikinn hag af því ef siglingaleiðin opnast þar sem það muni stytta siglingarleiðina á milli Kína og Evrópu annars vegar og Norður Ameríku hins vegar.
„Ráðstefnan leiddi í ljós að Ísland er mjög vel staðsett fyrir umskipunarhöfn ef siglingaleiðin þvert yfir Norður-Íshafið frá Norður Kyrrahafi opnast þar sem Ísland gæti þjónað flutningum bæði til austurstrandar Norður-Ameríku og til Evrópu,“ segir Ragnar Baldursson, starfsmaður Auðlinda- og umhverfisskrifstofu utanríkisráðuneytissins.