Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, vísar til bókunar borgarráðs vegna kaupa borgarinnar á Laugavegi 4 til 6 þegar hún er spurð um það hvort borgin muni grípa til svipaðra aðgerða vegna annarra húsa í miðbænum sem Húsafriðunarnefnd vill friða.
„Við áréttum að þessi samþykkt felur ekki í sér fordæmi fyrir önnur hús á svæðinu og leggjum áherslu á heildarskoðun gamalla húsa í miðborginni, sérstaklega við Laugaveg,“ segir í bókuninni.
Hanna Birna segir að þótt búið sé að heimila niðurrif á þremur af þeim ellefu húsum sem Húsafriðunarnefnd vill friða þá megi ætla að enn sé talsvert ferli eftir áður en þau verði fjarlægð.
Við vinnslu fréttarinnar náðist ekki í Ólaf F. Magnússon borgarstjóra.