Faxaflóahafnir lýsa áhyggjum af stöðunni á Akranesi

Stjórn Faxaflóahafna segir í ályktun, að ákveði HB Grandi að leggja áherslu á framtíðaruppbyggingu starfsemi sinnar á Akranesi sé stjórn Faxaflóahafn reiðubúin til þess að hefja þegar í stað viðræður og samvinnu við félagið um það hvernig það megi verða á sem farsælasta máta. 

Í ályktuninni segist stjórn Faxaflóahafna taka undir áhyggjur af stöðu mála varðandi fiskvinnslu og útgerð á Akranesi og áréttar að Faxaflóahafnir muni sem fyrr og í samræmi við viljayfirlýsingu eigenda fyrirtækisins frá í mars 2004 vinna að því að efla Akraneshöfn sem fiskihöfn.

Formaður stjórnar Faxaflóahafna og hafnarstjóri hafa þegar átt fund með forstjóra HB Granda varðandi starfsstöðvar félagsins á Akranesi og í Reykjavík og hugmyndir HB Granda hf. um breytingar og endurbætur á þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert