Fundur með HB Granda ekki haldinn að kröfu ASÍ

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að boðað hafi verið til fundar með forsvarsmönnum HB Granda og Samtaka atvinnulífsins að frumkvæði Vinnumálastofnunar vegna þeirra ávirðinga, sem HB Grandi hf hafði orðið fyrir um meint lögbrot á lögunum um hópuppsagnir. Segir Gissur að lög um tilkynningarskyldu fyrirtækisins til Vinnumálastofnunar hafi ekki verið brotin.

Segir Gissur í tilkynningu, að Vinnumálastofnun hafi talið nauðsynlegt að kalla til aðila málsins og fá frá fyrstu hendi upplýsingar og skoðanir/túlkanir. Hins vegar hafi komið upp sá misskilningur hjá HB Granda, að til fundarins hafi verið boðað að kröfu Alþýðusambands Íslands.

„Á fundinum var m.a. farið yfir þær ásakanir á hendur fyrirtækinu um að samráð samkvæmt lögum um hópuppsagnir hafi ekki verið nægilegt og að fyrirtækið hafi því brotið lög og rétt á fulltrúum starfsmanna þess. Niðurstaða Vinnumálastofnunar er að taka ekki afstöðu til þess hvort sá réttur hafi verið brotinn þar sem hún hafi ekki það hlutverk samkvæmt lögunum umfram að gæta þess að þau lágmarksskilyrði sem nefnd eru í lögunum séu haldin. Upplýsingar sem fram komu á fundinum gáfu ekki tilefni til að ætla að lögin hafi verið brotin að því er varðar tilkynningarskyldu fyrirtækisins til Vinnumálastofnunar," segir í tilkynningu Gissurar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka