Viðbrögð gjaldkera hárrétt

Lögregla í útibúi Glitnis í dag.
Lögregla í útibúi Glitnis í dag. Árvakur/Golli

Þrír gjaldkerar í útibúi Glitnis í Lækjargötu brugðust hárrétt við aðstæðum er maður vopnaður exi réðst að þeim skömmu eftir opnun útibúsins í morgun og krafði þá um fjármuni. Ýttu gjaldkerarnir á neyðarhnapp, sem setti i gang viðvörunarkerfi með hljóðum og afhentu manninum síðan peninga án þess að eiga nokkur frekari samskipti við hann.

Már Másson, upplýsingafulltrúi Glitnis, segir starfsfólk bankans vel þjálfað til að takast á við slíkar aðstæður og að það hafi skilað sér í þessu tilfelli. Megináhersla bankans sé að tryggja öryggi og vellíðan starfsmanna og því standi öllum starfsmönnum útibúsins áfallahjálp til boða eftir atburði morgunsins. Það taki þó fólk oft svolítinn tíma að átta sig á því hvort það hafi þörf fyrir slíkt og því liggi þörfin enn ekki fyrir.

 Þá segir hann fáa viðskiptavini hafa verið í bankanum enda hafi atburðurinn átt sér stað skömmu eftir opnun.

Már segir það vera vinnureglu bankans að gefa ekki upp hversu mikla fjármuni ræninginn hafi haft á brott með sér og að málið sé nú alfarið  í höndum lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka