Hæstiréttur hefur staðfest úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að tveir erlendir menn, sem ásamt þremur öðrum réðust á lögreglumenn í miðborg Reykjavíkur í janúar, sæti farbanni til 15. febrúar. Mennirnir, sem sátu í gæsluvarðhaldi til 1. febrúar, hafa verið ákærðir fyrir brot gegn valdstjórninni.
Í greinargerð lögreglunnar kemur fram, að fjórir lögreglumenn, óeinkennisklæddir og á vegum fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hafi þann 11. janúar haft afskipti af þremur mönnum vegna gruns um fíkniefnamisferli fyrir utan veitingastaðinn Monte Carlo við Laugaveg í Reykjavík.
Þegar lögreglumennirnir voru að ræða við mennina þrjá sáu þeir hvar tveir bílar stöðvuðu og út úr öðrum steig kona, sem gekk að lögreglumönnunum. Var henni kynnt að um lögregluaðgerð væri að ræða og hún beðin um að trufla ekki störf lögreglu. Í sömu andrá réðust fimm karlmenn að lögreglumönnunum með höggum og spörkum og hættu ekki þótt lögreglumennirnir sýndu þeim lögregluskírteini.
Lögreglumennirnir beittu kylfum og varnarúða og tókst að endingu að yfirbuga árásarmennina. Þrír voru handteknir á vettvangi en tveir komist undan og þeir voru handteknir síðar sama dag á heimili sínu í Reykjavík. Voru mennirnir úrskurðaðir í gæsluvarðhald.
Lögreglan segir að rannsókn málsins sé lokið og komið hafi í ljós að mennirnir fimm hafi veist að lögreglu algjörlega að tilefnislausu með fólskulegum hætti, vitandi að um lögreglumenn væri að ræða.
Annar mannanna, sem Hæstiréttur dæmdi í farbann í dag, viðurkennir að hafa tekið þátt í átökunum en lýsingu hans og lögreglu ber ekki saman. Hinn neitaði að hafa tekið þátt í átökunum en héraðsdómur segir að rökstuddur grunur leiki á að hann hafi tekið þátt í árásinni.