Sammy Estimo, lögmaður á Filippseyjum, hefur verið ráðinn til að gæta réttar sjö ára gamallar stúlku, sem sögð er vera dóttir skákmeistarans Bobby Fischers. Fram kemur í filippseyskum fjölmiðlum að skákmaðurinn Eugene Torre, sem var vinur Fischers, hafi haft milligöngu um samninga við lögmanninn.
Fullyrt er, að Fischer hefði eignast dóttur með konu að nafni Marilyn Young í borginni Baguio. Á fæðingarvottorði barnsins sé Robert James Fischer tilgreindur faðir þess. Stúlkan, Jinky að nafni, er nú sjö ára gömul. Hún kom hingað til lands ásamt móður sinni í árslok 2005.
Marilyn fram kemur á filippseyskum fréttavef að Marilyn Yong hafi afhent lögmanninum fæðingar- og skírnarvottorð dóttur sinnar, auk vegabréfs og mynda af stúlkunni með Fischer og undirrituðum skjölum. Þar á meðal er bankakvittun um að Fischer hafi sent stúlkunni 1500 evrur 4. desember á síðasta ári.
Haft er eftir Marilyn, að stúlkan og Fischer hafi haft samband á netinu og í síma, síðast að kvöldi 16. janúar, daginn áður en Fischer lést á sjúkrahúsi í Reykjavík.
Estimo er sagður vera byrjaður að undirbúa að leggja fram kröfu í dánarbú Fischers fyrir hönd stúlkunnar en hann er talinn hafa látið eftir sig jafnvirði um 140 milljóna íslenskra króna. Gert sé ráð fyrir að Miyoko Watai, sem er sögð hafa gifst Fischer í Japan 2004, og tveir systursynir Fichers, muni einnig gera tilkall til arfsins. Einnig er gert ráð fyrir að bandarísk stjórnvöld muni blanda sér í málið vegna skatta, sem þau telja Fischer skulda þar í landi.