Viðræður um kjaramál héldu áfram hjá sáttasemjara í gær. Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, segir að fyrst og fremst hafi verið farið yfir þau sameiginlegu mál sem séu á borði ASÍ og sáttasemjari hafi gefið skýrslu um stöðu mála.
Gylfi segir, að margt hafi þokast í rétta átt en enn vanti skýr svör við ýmsum atriðum. Hann áréttar að launaliðurinn sé ekki hjá ASÍ heldur hjá hverju sambandi fyrir sig og nefndar tölur í því sambandi hafi ekki verið samþykktar.
Gylfi Arnbjörnsson segir að enn sé ágreiningur um nokkur atriði, m.a. þau sem snúi að uppsagnarákvæðum. Samkeppnishamlandi ákvæði séu í ráðningarsamningum og verið sé að setja inn alls konar kvaðir á almenna starfsmenn um að þeir megi ekki vinna hjá samkeppnisaðila innan ákveðins tíma. Atvinnurekendur séu farnir að ganga ansi langt í þessu og þetta geti útilokað fólk frá vinnu í tvö til þrjú ár. Ennfremur sé deilt um útreikning á kaupi, vaktavinnufyrirkomulag, slysa- og veikindatryggingar og fleira. Gylfi segir að í sambandi við stórframkvæmdir vilji ASÍ sjá samning sem tryggi að hægt verði að halda utan um þær.
Gylfi segir að mörg atriði hafi skýrst en lokafasann vanti til að ljúka vinnunni og vilji sé til að setja kraft í málin næstu daga.