Reiknar með að eignasala á Keflavíkurflugvelli skili 8-9 milljörðum

Hús á Keflavíkurflugvelli.
Hús á Keflavíkurflugvelli. Árvakur/Eyþór

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu er meginskýringin á því að áætlað söluverð eigna á Keflavíkurflugvelli verður lægra en upphaflega var áætlað sú að ákveðið hefur verið að ríkið beri allan kostnað af breytingum á raflögnum í húseignunum, en sá kostnaður er áætlaður a.m.k. tveir milljarðar. Ráðuneytið reiknar með að það fái 12,8 milljarða fyrir eignirnar en formaður stjórnar Þróunarfélagsins segist reikna með að sala skili ríkinu 8-9 milljörðum.

Fjármálaráðuneytið hefur upplýst fjárlaganefnd Alþingis um að óverulegur hluti söluverðsins hafi skilað sér á síðasta ári, en í fjárlögum ársins 2007 var reiknað um 4,7 milljörðum. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að meiri tíma hefur tekið að skrá eignirnar en reiknað var með. Eignirnar þarf að skrá í Landsskrá fasteigna, gefa þarf út lóðablöð og veðbókarvottorð. Þessari vinnu er fyrst að ljúka núna. Þar að auki var hluti eignanna í umsjón Nato og Þróunarfélagið, sem sér um eignasöluna, fékk þær ekki afhentar fyrr en í þessum mánuði. Þetta þýðir að nær öll salan á eignunum verður skráð á þetta fjárlagaár.

Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, segir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir að breytingar á raflögnum í húsunum yrðu í umsjón Þróunarfélagsins og það bæri kostnað af þessum breytingum. Nú hafi hins vegar verið ákveðið að seljandinn, þ.e. ríkið, sjái um þennan þátt málsins. Kostnaðurinn við þessar breytingar sé áætlaður um 2 milljarðar króna og hann dragist frá kaupverðinu. Það mun því verða 13,7 milljarðar en ekki 15,7 milljarðar.

Til viðbótar lækkar söluverðið um 900 milljónir. Skýringin á þessu er, að sögn Þórhalls, að fermetrafjöldi þeirra húseigna sem Háskólavellir keyptu var ekki nákvæmlega þekktur. Þegar búið var að skrá eignirnar kom í ljós að fermetrarnir voru færri en áætlað hafði verið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka