Hætt við málssókn á hendur HB Granda

HB Grandi á Akranesi.
HB Grandi á Akranesi.

Verkalýðsfélag Akraness í samráði við Alþýðusamband Íslands ákveðið að aðhafast ekki frekar varðandi hugsanleg málaferli vegna uppsagna hjá HB Granda á Akranesi. Segir ASÍ að eftir að umfjöllun um fyrirhugaðar uppsagnir HB Granda hófst og gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar á framgöngu fyrirtækisins var sett fram hafi orðið umtalsverðar breytingar á afstöðu fyrirtækisins til málsins.

Á vef ASÍ segir, að þær breytingar birtist með skýrum hætti í því samstarfi sem nú hafi tekist með forsvarsmönnum HB Granda, trúnaðarmönnum, Verkalýðsfélagi Akraness og Vinnumálastofnun um endurmenntunaráætlun og ráðgjöf til þeirra,  sem missa vinnuna þegar uppsagnir starfsfólks koma til framkvæmda.  Viðkomandi starfsmönnum verður veitt aðstoð við atvinnuleit, aðgengi að viðeigandi námskeiðum, gerð ferilsskrár og greiningu áhugasviðs síns. Full ástæða sé til að fagna þessu framtaki og því samstarfi sem tekist hefur, enda sé það mjög í anda laganna um hópuppsagnir og markmiða þeirra.

Þá liggi fyrir að í framhaldi af þeim ágreiningi og deilum, sem ítrekað hafi komið upp um framkvæmd laga um hópuppsagnir og hlutverk stjórnvalda í þeim efnum, hafi félag- og tryggingamálaráðherra ákveðið að kanna í samráði við aðila vinnumarkaðarins hvort rétt sé að styrkja reglur um hópuppsagnir, þ.m.t. að skýra og taka af öll tvímæli um hvernig standa á að framkvæmdþeirra.

„Alþýðusamband Íslands telur að með því sem að framan greinir hafi náðst mikilvægur árangur í málinu. Markmiðið með afskiptum ASÍ og aðildarfélaga þess af framkvæmd laganna um hópuppsagnir er að tryggja að launafólk njóti þeirra réttinda sem lögin kveða á um og sjá til þess að stjórnvöld grípi í taumana ef útaf er brugðið," segir á vef ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka