Leit mun hefjast í birtingu

Challenger þota danska hersins aðstoðar við leitina.
Challenger þota danska hersins aðstoðar við leitina. Ljósmynd Víkurfréttir

Byrjað verður að leita að bandaríska ferjuflugmanninum sem brotlenti í sjónum um 50 mílur vestur af Keflavík í gær um leið og birtir eða um klukkan átta. Í leitinni taka þátt Fokkervél Landhelgisgæslunnar og Challenger þota danska hersins.

Aðstæður til leitar eru mjög slæmar að sögn Landhelgisgæslunnar og því verða þyrlur ekki notaðar við leitina til að byrja með. Það hafa verið þrír togarar og varðskipið Ægir á leitarsvæðinu að leita í alla nótt en blindbylur er þar og skyggni nánast ekkert.

„Það er glórulaust veður þarna, 30 til 35 hnútar og stanslaus él," sagði vaktmaður hjá Gæslunni í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í morgun.

Talið er að lítil von sé um að finna eitthvað í bili en eitthvað á veðrið að lægja með morgninum.

„Það á að reyna það sem hægt er miðað við aðstæður,“  sagði vaktmaður hjá Landhelgisgæslunni.

Vélin sem leitað er að er tveggja hreyfla, af gerðinni Cessna 310 og var á leið frá Narsassuaq á Grænlandi í ferjuflugi frá Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka