Leit að bandarísku Cessnu 330 flugvélinni sem brotlenti um 50 mílur vestur af Keflavík í gær hófst í birtingu í morgun er dönsk Challenger herþota fór á leitarsvæðið. Unnið er út frá nýrri leitaráætlun sem reiknuð hefur verið út frá reki og áætluðum brotlendingarstað.
Í fyrstu var áætlað að láta Fokkervél Landhelgisgæslunnar TF-SYN og dönsku herþotuna skiptast á að fara yfir leitarsvæðið en leitaráætlunin breyttist í morgun og er Fokkervélin að undirbúa sig undir flugtak.
Veður og sjólag er enn slæmt og ekki er reiknað með að senda þyrlur á leitarsvæðið að svo stöddu.
Varðskipið Ægir er á leitarsvæðinu og stýrir leit. Togararnir þrír sem aðstoðuðu við leitina í nótt eru farnir af svæðinu.
Enn hafa ekki borist upplýsingar um þjóðerni flugmannsins en vélin sem var í ferjuflugi frá Bandaríkjunum og kom frá Narsassuaq á Grænlandi er hún brotlenti um klukkan fjögur í gær.
Að sögn upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar er vitað að flugmaðurinn var með björgunarbát um borð og miðast leitin við það. Hins vegar hefur neyðarsendir flugvélarinnar ekki farið í gang en hann myndi gefa nána staðsetningu.