Annþór Kristján Karlsson, sem strauk úr fangageymslu lögreglunnar við Hverfisgötu í Reykjavík í morgun er kominn í leitirnar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum fannst Annþór í heimahúsi í Mosfellsbæ skömmu fyrir klukkan sex. Karl í sama húsi var sömuleiðis handtekinn í tengslum við rannsókn málsins.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum varð það fyrst og fremst öflug rannsóknarvinna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum í samvinnu við sérsveit og tollgæslu sem varð til þess að hann fannst.
Óskað verður eftir gæsluvarðhaldi yfir Annþóri í kjölfarið og á lögreglan von á því að hann fari í fangelsið að Litla Hrauni ef það gengur eftir.
Annþór strauk í morgun með því að brjóta sér leið út um glugga þar sem hann var á svokölluðum fangagangi. Tveir aðilar, karl og kona, voru svo handteknir síðdegis grunaðir um að hafa aðstoðað Annþór við flóttann eftir að hann komst út úr fangelsinu. Karlinn var handtekinn á höfuðborgarsvæðinu en konan á Suðurnesjum. Þau eru bæði laus úr haldi lögreglu.
Lýst var eftir Annþóri í fjölmiðlum og sagði í tilkynningu frá lögreglu að litið væri á sem svo að hann væri hættulegur.