Lögreglan lýsir eftir Annþóri Kristjáni Karlssyni, 32 ára, en hann strauk úr fangageymslu lögreglunnar við Hverfisgötu í Reykjavík í morgun. Annþór, sem er 186 sm á hæð, var klæddur í hvítan bol, bláar gallabuxur og er talinn vera í íþróttaskóm. Hann er þrekvaxinn og með ljóst hár. Annþór er talinn hættulegur, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við Fréttastofu að Annþór hafi verið vistaður á svokölluðum fangagangi þar sem fangar geta gengið um.
Komst yfir kaðal
„Hann var einn á ganginum og braust inn í læsta geymslu sem þar er og komst yfir kaðalspotta sem þar var og braut síðan glugga sem snýr út að Snorrabraut og komst þaðan út óséður," sagði Geir Jón.
Annþór hafði komið inn til vistunar í fangageymslunni seinni hluta dags í gær að beiðni lögreglunnar á Suðurnesjum og fíkniefnadeildar ríkislögreglustjóra.
Glugginn sem hann braut er á annarri hæð og er hann í um 6 til 7 metra hæð en kaðallinn sem Annþór komst yfir er um 2 til 3 metra langur.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir hans eru beðnir að hafa samband við lögregluna í síma 800-1000 eða 420-1800.