Lögreglan rannsakar enn hvernig það atvikaðist að fanga tókst að sleppa úr fangageymslu á annarri hæð lögregluhússins við Hlemm í Reykjavík síðast liðinn föstudag. „Málið er á borði lögreglustjóra og bíður frekari umfjöllunar," sagði Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Geir Jón sagði að rannsókn á málinu stæði enn yfir og verið væri að fara yfir verkferla og annað sem tengist þessu máli. „Lögreglustjóri er að fara yfir þau gögn sem hann hefur fengið um málið," sagði Geir Jón.
Fanginn sem strauk, Annþór Kristján Karlsson kom fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness sama kvöld og var úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald. Hann
var í kjölfarið fluttur í fangelsið að Litla Hrauni.
Annþór
strauk úr haldi lögreglunnar á Hverfisgötu með því að brjóta
sér leið út um glugga þar sem hann var á svokölluðum fangagangi.
Tveir
aðilar, karl og kona, voru svo handteknir síðdegis á föstudag grunuð um að hafa
aðstoðað Annþór við flóttann eftir að hann komst út úr fangelsinu.
Karlinn var handtekinn á höfuðborgarsvæðinu en konan á Suðurnesjum. Þau
eru bæði laus úr haldi lögreglu.
Annþór, sem er 32ja ára, hefur
verið í gæsluvarðhaldi í tengslum við fíkniefnamál, en hann hafði komið
inn til vistunar í fangageymslunni á fimmtudaginn að beiðni lögreglunnar á
Suðurnesjum og fíkniefnadeildar ríkislögreglustjóra.