Kostnaður vegna útboða Sæfara hækkar enn

Sæfari leggst við bryggju á Akureyri.
Sæfari leggst við bryggju á Akureyri. Árvakur/Skapti

Talið er að kostnaður vegna lokafrágangs Grímseyjarferjunnar Sæfara verði helmingi hærri en gert var ráð fyrir í útboði, vegna verkþátta sem hvergi var minnst á í útboðsgögnum.

Í fyrra útboði vegna viðgerðar ferjunnar ríflega tvöfaldaðist kostnaðurinn, úr 125 milljónum króna upp í rúmlega þrjú hundruð milljónir króna, af sömu ástæðu.

Ráðgjafafyrirtækið Navis ehf. hafði umsjón með gerð útboðs í bæði skiptin, ásamt því að hafa eftirlit með framkvæmdum.

Samkvæmt heimildum 24 stunda var ýmsa verkþætti að finna í síðara útboðinu sem fyrri verktaki benti eftirlitsaðila Vegagerðarinnar ítrekað á, meðan hann vann að verkinu.

„Þessir þættir hafa bæst við af þremur ástæðum. Þetta eru í fyrsta lagi þættir sem fyrri verktaki lauk ekki. Í öðru lagi eru þetta þættir sem við höfum bætt við vegna ábendinga Grímseyinga, rekstraraðilans og áhafnarinnar. Og í þriðja lagi eru þetta þættir sem komu upp við siglinguna til Akureyrar,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Ekki fékkst uppgefið hjá Vegagerðinni hversu mikið ráðgjafa- og eftirlitsþjónusta fyrirtækisins vegna verksins hefur kostað, en í sumar var kostnaðurinn um 25 milljónir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert