Vissi að líkur væru á ísingu

Flugmaður­inn sem leitað hef­ur verið að síðan vél hans hvarf af rat­sjá á fimmtu­dags­morg­un hafði fengið upp­lýs­ing­ar um að hóf­leg hætta væri á ís­ingu á flug­leiðinni, í 7.000 til 10.000 feta hæð, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Flugþjón­ust­unni Reykja­vík sem veitti flug­mann­in­um flugþjón­ustu. Fram hef­ur komið að ís­ing þvingaði vél­ina sí­fellt niður á við þar til hún hvarf af rat­sjá.

Leit að flug­manni vél­ar­inn­ar, sem er af gerðinni Piper PA 28 Cherokee, var haldið áfram fram í myrk­ur í gær. Varðskip hef­ur leitað á svæðinu frá því á fimmtu­dag ásamt Fokk­er-flug­vél Land­helg­is­gæsl­unn­ar sem fór til leit­ar í birt­ingu. Aðstæður til leit­ar voru afar erfiðar, vind­ur 25-35 m/​s og öldu­hæð á bil­inu 8-12 metr­ar. Gekk á með dimm­um élj­um.

Að sögn starfs­manna Flugþjón­ust­unn­ar var flugmaður­inn ágæt­lega bú­inn, með þurrgalla og lít­inn björg­un­ar­bát í vél­inni. Þá á hann tölu­vert marga flug­tíma að baki en hef­ur til­tölu­lega litla reynslu af því að fljúga eins hreyf­ils flug­vél­um yfir opið haf.

Flugmaður­inn lenti á Reykja­vík­ur­flug­velli á mánu­dags­kvöld og fékk flugþjón­ustu hjá Flugþjón­ust­unni Reykja­vík. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá fyr­ir­tæk­inu hugðist hann leggja af stað áleiðis til Skot­lands á miðviku­dag en hætti við þar sem hon­um var tjáð að veru­leg hætta væri á ís­ingu á flug­leiðinni. Á fimmtu­dag gerðu veður­spár ráð fyr­ir hóf­legri hættu á ís­ingu og ákvað maður­inn þá að leggja af stað.

Tæp­lega sex tíma flug

Í þessu til­viki var gert ráð fyr­ir að flugið tæki tæp­lega sex klukku­stund­ir en í vél­inni var nægj­an­legt eldsneyti til 10-14 klukku­stunda flugs.

Flug­vél­in var búin tak­mörkuðum af­ís­ing­ar­búnaði sem dug­ar þegar ís­ing­in er væg. Svo virðist sem hann hafi ekki dugað til. Þá verður að hafa í huga að ís­ing get­ur hlaðist skjótt á flug­vél­ar við til­tekn­ar aðstæður og hún get­ur bæði hlaðist utan á vél­ina og valdið vél­artrufl­un­um.

Ákvörðun flug­manns

Að sögn Hrafn­hild­ar Brynju Stef­áns­dótt­ur, upp­lýs­inga­full­trúa Flug­stoða, hafa flug­mála­yf­ir­völd ekki heim­ild til að banna flug­mönn­um að leggja af stað þótt veðurút­lit á flug­leið þeirra sé óhag­stætt. Flug­menn fái aðgang að öll­um nauðsyn­leg­um gögn­um hjá flugþjón­ustu­fyr­ir­tækj­um og séu full­fær­ir um að taka ákv­arðarn­ir sjálf­ir.

Fyrr­ver­andi flug­um­ferðar­stjóri, sem rætt var við, minnti á að sá sem bann­ar ein­hverj­um för verði vænt­an­lega líka að leyfa hon­um að halda af stað þegar aðstæður breyt­ast. Í því sé ekki síður mik­il ábyrgð fólg­in.

Missa meðvit­und við 35°C

Að sögn Hilm­ars Snorra­son­ar, skóla­stjóra Slysa­varna­skóla sjó­manna, eru björg­un­ar­gall­ar líkt og notaðir eru um borð í skip­um, þeim eig­in­leik­um bún­ir að í þeim er jafnt flot, þ.e. þeir halda vit­un­um ekki upp úr sjó líkt og björg­un­ar­vesti eru hönnuð til að gera. Þá eru gerðar þær kröf­ur til björg­un­ar­galla að lík­ams­hiti manns sem er í 5°C heit­um sjó lækki ekki um meira en 2°C eft­ir sex klukku­stunda veru í sjón­um. „Það er alltaf spurn­ing um hversu lengi þú hef­ur meðvit­und,“ seg­ir Hilm­ar. Menn missi gjarn­an meðvit­und þegar lík­ams­hiti fer niður fyr­ir 35°C en þeir geti þó haldið meðvit­und tölu­vert leng­ur. „Menn sem eru að kólna missa alltaf meðvit­und. Það er bara spurn­ing um tíma.“ Í veru­leg­um sjó sé sömu­leiðis hætta á að björg­un­ar­gall­ar rifni.

Hafi flugmaður­inn kom­ist í björg­un­ar­bát sem hafi staðist öldu­rótið á staðnum eru lífs­lík­ur hans mun meiri en ella, að sögn Hilm­ars.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka