Flugmaðurinn sem leitað hefur verið að síðan vél hans hvarf af ratsjá á fimmtudagsmorgun hafði fengið upplýsingar um að hófleg hætta væri á ísingu á flugleiðinni, í 7.000 til 10.000 feta hæð, samkvæmt upplýsingum frá Flugþjónustunni Reykjavík sem veitti flugmanninum flugþjónustu. Fram hefur komið að ísing þvingaði vélina sífellt niður á við þar til hún hvarf af ratsjá.
Leit að flugmanni vélarinnar, sem er af gerðinni Piper PA 28 Cherokee, var haldið áfram fram í myrkur í gær. Varðskip hefur leitað á svæðinu frá því á fimmtudag ásamt Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar sem fór til leitar í birtingu. Aðstæður til leitar voru afar erfiðar, vindur 25-35 m/s og ölduhæð á bilinu 8-12 metrar. Gekk á með dimmum éljum.
Að sögn starfsmanna Flugþjónustunnar var flugmaðurinn ágætlega búinn, með þurrgalla og lítinn björgunarbát í vélinni. Þá á hann töluvert marga flugtíma að baki en hefur tiltölulega litla reynslu af því að fljúga eins hreyfils flugvélum yfir opið haf.
Flugmaðurinn lenti á Reykjavíkurflugvelli á mánudagskvöld og fékk flugþjónustu hjá Flugþjónustunni Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hugðist hann leggja af stað áleiðis til Skotlands á miðvikudag en hætti við þar sem honum var tjáð að veruleg hætta væri á ísingu á flugleiðinni. Á fimmtudag gerðu veðurspár ráð fyrir hóflegri hættu á ísingu og ákvað maðurinn þá að leggja af stað.
Í þessu tilviki var gert ráð fyrir að flugið tæki tæplega sex klukkustundir en í vélinni var nægjanlegt eldsneyti til 10-14 klukkustunda flugs.
Flugvélin var búin takmörkuðum afísingarbúnaði sem dugar þegar ísingin er væg. Svo virðist sem hann hafi ekki dugað til. Þá verður að hafa í huga að ísing getur hlaðist skjótt á flugvélar við tilteknar aðstæður og hún getur bæði hlaðist utan á vélina og valdið vélartruflunum.
Að sögn Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur, upplýsingafulltrúa Flugstoða, hafa flugmálayfirvöld ekki heimild til að banna flugmönnum að leggja af stað þótt veðurútlit á flugleið þeirra sé óhagstætt. Flugmenn fái aðgang að öllum nauðsynlegum gögnum hjá flugþjónustufyrirtækjum og séu fullfærir um að taka ákvarðarnir sjálfir.
Fyrrverandi flugumferðarstjóri, sem rætt var við, minnti á að sá sem bannar einhverjum för verði væntanlega líka að leyfa honum að halda af stað þegar aðstæður breytast. Í því sé ekki síður mikil ábyrgð fólgin.
Að sögn Hilmars Snorrasonar, skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna, eru björgunargallar líkt og notaðir eru um borð í skipum, þeim eiginleikum búnir að í þeim er jafnt flot, þ.e. þeir halda vitunum ekki upp úr sjó líkt og björgunarvesti eru hönnuð til að gera. Þá eru gerðar þær kröfur til björgunargalla að líkamshiti manns sem er í 5°C heitum sjó lækki ekki um meira en 2°C eftir sex klukkustunda veru í sjónum. „Það er alltaf spurning um hversu lengi þú hefur meðvitund,“ segir Hilmar. Menn missi gjarnan meðvitund þegar líkamshiti fer niður fyrir 35°C en þeir geti þó haldið meðvitund töluvert lengur. „Menn sem eru að kólna missa alltaf meðvitund. Það er bara spurning um tíma.“ Í verulegum sjó sé sömuleiðis hætta á að björgunargallar rifni.
Hafi flugmaðurinn komist í björgunarbát sem hafi staðist öldurótið á staðnum eru lífslíkur hans mun meiri en ella, að sögn Hilmars.