Eftir Atla Fannar Bjarkason
„Ástæðan fyrir þessari færslu er ofboðslegt einelti sem mér þótti Ómar [R. Valdimarsson] leggja fólk í á bloggsíðu sinni. Færslan stendur ein og sér og var háð því hvernig hann skrifar um aðra. Ég leyfði honum að bragða á eigin meðali,“ segir dagskrárgerðarmaðurinn Gaukur Úlfarsson.
Gaukur var í vikunni dæmdur til að greiða Ómari R. Valdimarssyni 300.000 krónur í miskabætur vegna ummæla á bloggsíðu sinni. Gaukur var meðal annars dæmdur fyrir að kalla Ómar aðal rasista bloggheima.
Gaukur segist hafa skilið eftir athugasemd á bloggsíðu Ómars í kjölfar skrifa hans um Paul Nikolov þar sem hann spurði um ástæðu eineltisins í garð Nikolovs. Athugasemdunum var eytt og Gauki var meinaður aðgangur að athugasemdakerfi bloggsíðunnar. „Auðvitað meinti ég aldrei að Ómar væri rasisti,“ segir Gaukur. „En ég gaf mér leyfi til að álykta það vegna þess að hann svaraði mér ekki og meinaði mér aðgang að athugasemdakerfi sínu. Alveg eins og Ómar ályktaði að Paul Nikolov vildi að Aron Pálmi rotnaði í fangelsi.“
Umræðan um málið hefur verið heit í þjóðfélaginu og margir tjáð sig um málið. Reynir Traustason, ritstjóri DV, kallar Gauk til dæmis netníðing í vefsíðunni dv.is. „Fólk hefur tjáð sig um málið án þess að hafa kynnt sér það,“ segir Gaukur. „Flestir virðast sammála því að ég sé bloggníðingur – að ég hafi stundað að níða fólk, sem er alls ekki rétt. Fólk getur kynnt sér það á bloggsíðunni minni að það er ekki eina einustu færslu að finna sem er í líkingu við færsluna um Ómar.“