Eftir Steinþór Guðbjartsson
Loðnuflotinn hefur verið við veiðar í Faxaflóa að undanförnu og er farið að síga í seinni hlutann, þótt enn eigi eftir að veiða um 50% kvótans, ríflega 70 þúsund tonn af um 152 þúsund tonna kvóta.
„Þetta svona smá-mjakast,“ segir Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni, um veiðar gærdagsins. Hann kom á miðin á sunnudag og vonaðist til að geta haldið heim á leið í gærkvöldi, en um sólarhring tekur að sigla til Eskifjarðar.
Grétar telur að fáir veiðidagar séu eftir. Þeir eigi líka lítið eftir af kvótanum en segir alltaf skemmtilegra að klára hann á sómasamlegan hátt heldur en að þurfa að skilja eitthvað eftir. „Ef það verður eitthvað næstu daga þá klárum við okkar.“