Kjarasamningur VR og Samtaka atvinnulífsins var samþykktur með miklum meirihluta atkvæða en rafrænni atkvæðagreiðslu lauk á hádegi í dag. Alls samþykktu 72,3% samninginn en 25,3% höfnuðu honum. Niðurstaða í atkvæðagreiðslu Landssambands íslenskra verslunarmanna var sú að 82,3% sögðu já en 10,2% sögðu nei.
12,73% félaga í VR tóku þátt í atkvæðagreiðslunni eða 2541 af 19.955. Þátttaka í atkvæðagreiðslu Landssambands íslenskra verslunarmanna var 26,68% eða 846 af 5465.
Kjarasamningar verslunarmanna voru undirritaðir 17. febrúar og gilda frá 1. febrúar sl. til 30. nóvember 2010.
Samkvæmt samningunum hækka lágmarkslaunataxtar auk þess sem samið var um launaþróunartryggingu fyrir þá sem taka laun yfir lágmarkslaunatöxtum og hafa verið í starfi hjá sama fyrirtæki allt árið 2007.