Einn dæmdur og tveir sýknaðir af ákæru fyrir árás á lögreglu

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt einn erlendan karlmann í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á lögreglumenn sem voru við skyldustörf á Laugavegi í Reykjavík í janúar. Tveir aðrir erlendir menn voru sýknaðir í málinu. Mennirnir sátu allir um tíma í gæsluvarðhaldi og sættu síðan farbanni.

Málavextir voru þeir, að fjórir lögreglumenn, óeinkennisklæddir og á vegum fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgar­svæðinu höfðu afskipti af tveimur karlmönnum og einni konu vegna gruns um fíkniefnamisferli fyrir utan veitingastaðinn Monte Carlo við Laugaveg í Reykjavík í janúar.

Lögreglumennirnir báru, að þeir hefðu verið að ræða við fólkið þegar þeir sáu hvar tveir bílar voru stöðvaðir og út úr öðrum steig kona, sem gekk að lögreglumönnunum. Var henni kynnt að um lögregluaðgerð væri að ræða og hún beðin um að trufla ekki störf lögreglu. Í sömu andrá hafi fimm karlmenn veist að lögreglumönnunum með höggum og spörkum og ekki hætt þótt lögreglumennirnir sýndu þeim lögregluskírteini.

Í dómnum segir, að svo virðist sem einn erlendu mannanna og konan, sem var með þeim í öðrum bílnum, hafi túlkað aðgerðir lögreglumannanna sem árás á hina konuna og farið út úr bílnum í þeim tilgangi að hjálpa henni.

Dómurinn taldi sannað að einn mannanna hefði slegið tvo lögreglumenn. Hins vegar taldi dómurinn að ekki hefði komið fram lögfull sönnun á að mennirnir þrír hefðu slegið þriðja lögreglumanninn. Er m.a. vísað til þess að tveir félagar mannanna hefðu einnig verið á vettvangi en þeir voru ekki ákærðir.

Mennirnir báru að þeir hefðu ekki gert sér grein fyrir að það voru lögreglumenn sem þeir réðust á. Segir dómurinn, verulegur vafi leiki á því hvort manninum, sem fundinn var sekur, hafi mátt vera ljóst að um var að ræða lögreglumenn þegar hann sló þá.

Maðurinn var ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni en dómurinn sakfelldi hann fyrir líkamsárás.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert