Guðný Halldórsdóttir, dóttir Halldórs Laxness, segist fagna því mjög að með dómi Hæstaréttar í dag sé höfundarréttur tekinn alvarlega. Málið hafi tekið fjögur ár og hún voni að öðrum detti ekki í hug að gera viðlíka hluti.
„Í sjálfu sér mátti búast við þessari niðurstöðu, hafi maður kynnt sér málið og séð hvað Hannes gerði í þessum bókaflokki sínum. Það sjá allir að það sem hann gerði var mjög ósiðvant. Hann tók skáldsögur eftir Halldór Kiljan Laxness og gerði hluta af þeim að hans ævisögu," segir Guðný.
„Það eina sem við báðum um var að hann bæðist opinberlega afsökunar og drægi þessar bækur til baka. Hann vildi það ekki og bar á okkur ýmsa óréttláta hluti í framhaldi af því, eins og við hefðum lokað fyrir honum bréfasafni, sem var ekki rétt. Hannes sést ekki fyrir hvað hann er að gera og veður áfram. En það eru til lög í landinu."
Hún segir málið ekki hafa snúist um fébætur, heldur hversu langt megi ganga í höfundarrétt annarra. „Það er ekki hægt að stela tónlist, kvikmyndum eða ganga í skáldsögur annarra, breyta texta þeirra örlítið og gera þær að sínum," segir Guðný.
Hún kveðst því fegin að málið sé búið og segist vona að Hannes hafi það gott í framhaldinu.
Sérstök aðferð sem Hæstiréttur beitir
Heimir Örn Herbertsson, lögmaður Hannesar Hólmsteins í málinu, segir niðurstöðu dómsins ekki einhlíta. „Það er auðvitað sigur fyrir umbjóðanda minn að miska- og refsikröfum er hafnað og dæmdar fébætur eru mun lægri en krafist var. Hins vegar eru það vonbrigði að bætur séu yfirleitt dæmdar. Þá er til þess að líta að aðferðin sem Hæstiréttur beitir, er að mati Hannesar mjög sérstök."
Með þessu á Heimir Örn við að í dómnum sé staðfest að engin skýr mörk séu á milli þess hvað sé heimil nýting á höfundarvernduðum texta í málinu og hvað ekki, beinlínis segi í dómnum að þau mörk hljóti að ráðast af mati sem óhjákvæmilega geti verið vandasamt og umdeilanlegt.
„Þessi mörk lágu ekki fyrir þegar Hannes var að rita sína bók. Aðferðin sem hann notaði við að vísa í endurminningabækur Halldórs var ljós frá byrjun, engu var leynt um það. Einnig lá fyrir að Hannes hagnýtti sér upplýsingar úr endurminningabókum Halldórs. Hæstiréttur virðist því telja að óljós og óglögg mörk, sem ekki lágu fyrir þegar Hannes skrifaði sína bók, hafi, eftir á að hyggja, ekki verið virt," segir Heimir og spyr hvernig þetta hafi átt að sjá fyrir.