Helgi Hallvarðsson, fyrrverandi skipherra, andaðist á Landspítalanum 15. mars síðastliðinn á 77. aldursári. Helgi var fæddur hinn 12. júní árið 1931 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Guðfinna Lýðsdóttir húsmóðir og Hallvarður Rósinkarsson vélstjóri, bæði fædd á Skógarströnd. Eftirlifandi eiginkona Helga er Þuríður Erla Erlingsdóttir íþróttakennari. Börn þeirra eru þau Guðfinna, Sigríður og Helgi.
Helgi lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1954 og varðskipaprófi frá varðskipadeild skólans árið 1962. Þá lauk hann flugumferðarstjóraprófi frá Flugmálastjórn árið 1956, auk ýmissa námskeiða, m.a. hjá bandarísku strandgæslunni, danska sjóhernum og öðrum, tengdum starfsemi Landhelgisgæslunnar.
Helgi starfaði lengst af hjá Landhelgisgæslunni. Hann var stýrimaður á öllum varðskipum og flugvélum hennar árin 1954 til 1963 og skipherra á öllum varðskipum, flugvélum og í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar frá 1964 til 1990. Helgi var oft í fremstu víglínu þegar landhelgin var færð út í 12, 50 og síðar 200 mílur og Íslendingar háðu sín þorskastríð.
Hann tók virkan þátt í stjórnmálastarfi, lengst af með Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík og Kópavogi, en síðar með Frjálslynda flokknum.
Helgi skrifaði fjölda greina í Morgunblaðið og Sjómannablaðið Víking og flutti einnig útvarpserindi um mál Landhelgisgæslunnar og öryggismál sjómanna.
Helgi hlaut St.Olavsorðuna, fyrstu gráðu, árið 1974 og riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1976.
Morgunblaðið og Helgi Hallvarðsson áttu alla tíð mikil og góð samskipti sem þökkuð eru að leiðarlokum um leið og blaðið sendir aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.