Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun fara fram á gæsluvarðhaldsúrskurð yfir fjórum mönnum sem réðust vopnaðir inn á heimili í Keilufelli í Breiðholti í gær og gengu í skrokk á mönnum sem þar voru fyrir. Lögregla hefur enn ekki haft uppi á fleiri mönnum sem taldir eru tengjast málinu en unnið er að rannsókn þess.
Talið er að tíu til tólf manns hafi tekið þátt í árásinni sem þótti sérlega fólskuleg. Ekkert hefur verið gefið upp um það hvort fyrir liggi upplýsingar um það hvað lá að baki árásinni .
Sjö voru fluttir á slysadeild eftir árásina og er einn þeirra mjög alvarlega slasaður. Mennirnir eru allir Pólverjar.