Vitað er að minkur er kominn í Elliðaey og Fagurey á Breiðafirði, og grunur leikur á að minkur sé einnig í Bíldsey. Þessar eyjar eru út af Stykkishólmi og hefur tekist að mestu að verja þær síðustu fimm árin. Minkurinn kemur af Fellsströnd og Skarðsströnd og þar mun Æðarræktarfélag Snæfellinga koma upp vörnum í samvinnu við Dalamenn.
Talið er að minkurinn komi út á eyjarnar úr Langeyjarnesi og syndi yfir stutt eyjasund um Langeyjar og lengri sund út í Arney, Skjaldarey, Bíldsey og Fagurey og smærri eyjar og hólma, að sögn Ásgeirs Gunnars Jónssonar, formanns Æðarræktarfélags Snæfellinga. Hins vegar er meiri ráðgáta hvernig minkurinn kemst út í Elliðaey en þangað eru þrír kílómetrar úr Fagurey.
Vargurinn veldur miklum usla í æðarvarpi sem eyjabændur hafa verið að hlúa að enda drepur hann meira en hann torgar. Þannig hefur fundist ótrúlegur fjöldi fuglshræja í einstökum grenjum, að sögn Ásgeirs Gunnars.
Hann segir að vel hafi gengið að halda mink í skefjum í Stykkishólmslandi, meðal annars með notkun minkasía Reynis Bergsveinssonar og með aðstoð góðra veiðimanna. Ekki hefur fundist minkur innan bæjarmarkanna í þrjú ár.
Nú stendur yfir tilraunaverkefni sem gengur út á það að athuga hvort hægt sé að eyða öllum mink á Snæfellsnesi. Stjórn veiðanna er í höndum verkefnisstjórnar en ekki sveitarfélaganna eins og áður. Hefur það skapað óvissu um leit í eyjum en eyjabændur leggja áherslu á að vanir veiðimenn verði fengnir til að leita með góðum minkahundum. Ekki hefur verið samið við veiðimenn um að leita eyjarnar í vor en þeir hafa yfirleitt verið ráðnir að hausti. Ásgeir Gunnar segir að eyjabændur taki mikinn þátt í þessu verkefni og þeir muni sjá til þess að eyjarnar verði leitaðar með hundum, hvað sem öðru líður.
Þá hefur Æðarræktarfélag Snæfellinga tekið upp samstarf við Dalamenn um að fá Reyni Bergsveinsson til að setja upp minkasíur við aðkomuleið minkanna út í eyjarnar og bindur Ásgeir Gunnar vonir við að það starf skili árangri.