Eftir Ægi Þór Eysteinsson
„Borgin hefur ítrekað brotið á íbúum með því að hafa þá ekki nægilega með í ráðum þegar kemur að gerð deiliskipulags, þrátt fyrir að henni beri að gera það samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.“
Þetta segir Kári Halldór Þórsson, íbúi við Bergstaðastræti í miðborg Reykjavíkur. Hann telur að borgaryfirvöld gangi erinda verktaka á kostnað lögbundinna hagsmuna íbúa.
Í fjórðu málsgrein um gerð og framkvæmd skipulags í skipulags- og byggingarlögum segir að við gerð skipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa. Í skipulagsreglugerð segir að leitast skuli við að marka stefnu og áherslur skipulagstillögu í sem mestri samvinnu við íbúa og kynna áform með áberandi hætti, s.s. með auglýsingum, dreifibréfum og fundum og leita eftir skoðunum þeirra varðandi helstu atriði.
„Tillögur og sjónarmið eru mun sterkari en athugasemd. Okkur er alltaf tilkynnt að við höfum einhvern athugasemdarétt en ég hef ekkert fundið um hann í lögunum né hvort þessi réttur sé skilgreint hugtak. Hins vegar ber borginni að hafa samráð við okkur íbúana samkvæmt lögum og það hefur hún vanrækt mikið.“
„Ég veit dæmi þess að íbúum hafi verið hótað að útigangsfólki verði komið fyrir í húsum í nágrenni við þá vilji þeir ekki selja fasteignir sínar. Af hverju er svona mikil tregða hjá borginni að láta loka þessum opnu og auðu húsum? Af hverju þurfa íbúar að standa í því að hringja í lögreglu viku eftir viku út af linkind borgarinnar?“