Pólverjinn Tomasz Krzysztof Jagiela, sem lögregla hafði lýst eftir, gaf sig fram við lögreglu í Reykjanesbæ á milli klukkan tíu og ellefu í morgun. Samkvæmt upplýsingum Gísla Þorsteinssonar rannsóknarlögreglumanns verður maðurinn fluttur til Reykjavíkur þar sem hann verður yfirheyrður síðar dag. Þá segir hann liggja ljóst fyrir að farið verði fram á gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manninum.
Mannsins var leitað í tengslum við rannsókn á árásarmáli í Keilufelli í Reykjavík þegar hópur manna réðist á Pólverja, sem þar búa. Fimm manns sitja í gæsluvarðhaldi vegna málsins.
Gísli segir rannsókn málsins vera í fullum gangi en að það sé umfangsmikið og að henni muni því ekki ljúka alveg á næstunni. Þá segir hann engar upplýsingar liggja fyrir um fleiri menn sem taldir eru hafa tekið þátt í árásinni í Keilufelli. Vitni að árásinni sögðust strax eftir atvikið telja að tíu til tólf menn hefðu tekið þátt í henni.