Eldurinn sem tilkynnt var um í Turninum við Smáratorg í Kópavogi á tíunda tímanum í kvöld kom upp á annarri hæð í byggingu sem er aðskilin frá sjálfum turninum. Slökkvistarf stendur enn en eldurinn logar í byggingarefni. Enginn er í hættu vegna eldsins og hefur fólki verið hleypt á ný inn í Turninn.
Turninn var rýmdur, en fólk var bæði á veitingastað á 19. hæð og í líkamsræktarstöð á 12. hæð. Að sögn Þorgeirs Elíeserson, vettvangsstjóra lögreglunnar, er enginn reykur í turninum sjálfum.
Í útbyggingunni sem eldurinn kviknaði í eru skrifstofur, m.a. Kaupþings. Þar er nú töluverður reykur, og reykkafarar slökkviliðsins að störfum.
Þorgeir sagði að ekki væri ljóst hvernig eldurinn kom upp.