Fjórir farþegar í öðrum bílnum sem lenti í árekstrinum á Reykjanesbraut í morgun eru alvarlega slasaðir og tveimur þeirra hefur versnað og eru á leið í aðgerð að sögn Þóris Njálssonar sérfræðings á slysa- og bráðadeild borgarspítalans í Fossvogi.
„Það eru allir nema einn sem í bílnum voru alvarlega slasaðir," sagði Þórir í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins fyrir skömmu. Hann sagði að það væru allir í svokallaðri hágæslu og að tveir væru á leið í aðgerð.
Þórir sagði að það væri erfitt að meta stöðuna á þessu stigi málsins en það eru innvortis áverkar sem hrjá fólkið.
Þórir sagðist ekki vita um líðan fólksins sem var í hinum bílnum eða í slysinu á Kjalarnesinu því slysið gerðist fyrir vaktaskipti og nú væri það fólk komið á hinar ýmsu deildir eða jafnvel útskrifað.