Fleiri slys og óhöpp

„Það er ekki eftir neinu að bíða. Við getum ekki beðið eftir reglugerð eða einhverju öðru. Við verðum að beita öðrum úrræðum þangað til,“ segir Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu varðandi ástandið á Reykjanesbraut, en enn eitt umferðarslys varð á veginum í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá slysaskráningu Umferðarstofu urðu ríflega tvöfalt fleiri slys og óhöpp á Reykjanesbraut frá ágúst í fyrra til janúar í ár en á tímabilinu frá ágúst árið 2004 til janúar 2005. Um er að ræða þann kafla Reykjanesbrautarinnar þar sem vegaframkvæmdir hafa staðið yfir, þ.e. rétt austan við vegamótin við Vogaafleggjarann og vestur að Njarðvík.

Samkvæmt Umferðarstofu urðu slysin og óhöppin alls 24 talsins á fyrra tímabilinu sem um ræðir, en þau voru 55 talsins frá og með ágúst 2007 til janúarloka 2008.

Eitt alvarlegt slys, sex slys með litlum meiðslum og 17 óhöpp án meiðsla urðu á fyrra tímabilinu. Á því seinna urðu svo 15 slys með litlum meiðslum og 40 óhöpp án meiðsla.

Síðan þá hafa fleiri slys og óhöpp átt sér stað, nú síðast í morgun við Vogaafleggjarann á Reykjanesbraut og liggja fjórir alvarlega slasaðir á slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi.

Vegagerðin greindi frá því fyrr í dag að ákveðið hafi verið, í kjölfar slyssins sem varð í morgun, að aðskilja akstursstefnur með föstum rauðum og hvítum gátskiltum á milli akreina á allra næstu dögum. Þá verði komið upp stærri skiltum til að vekja aukna athygli á því að ekið sé á tvístefnuakreinum á umræddu framkvæmdasvæði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert