Sjö tilboð bárust í útboði Vegagerðarinnar á tvöföldum Reykjanesbrautarinnar en verkið var boðið út á ný eftir að fyrri verktaki varð að segja sig frá því. Samkvæmt útboðinu á brautin að vera aksturshæf 16. október en fullbúin fyrir 1. júní á næsta ári.
Áætlaður kostnaður við verkið er 770 milljónir króna. Sex tilboðanna sem bárust voru hærri en eitt lægra. Tilboðin voru eftirtalin:
Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf. 969.476.470 krónur
Íslenskir aðalverktakar hf. 955.144.000 krónur
Glaumur og Árni Helgason 917.768.100 krónur
Loftorka ehf. og Suðurverk hf. 847.279.900 krónur
Háafell ehf. 841.841.841 krónur
Ístak hf. 807.129.603 krónur
Adakris uab./Toppverktakar ehf. 698.800.000. krónur
Á útboðskaflanum er ýmist búið að ljúka fyllingum, leggja neðra eða efra burðarlag eða leggja eitt eða tvö malbikslög. Ljúka skal við nýja syðri akbraut, ljúka fyllingum að brúm, frágangi fláa ásamt nauðsynlegri landmótun til að ljúka verkinu.