Ekki miklar skemmdir

Slökkviliðsmenn að störfum.
Slökkviliðsmenn að störfum. mbl.is/Ómar

Ekki er talið að miklar skemmdir hafi orðið í brunanum í Turninum í Smáralind í Kópavogi í gærkvöldi. Eldur kom upp í útbyggingu úr Turninum en eldvarnarveggur skilur hana frá sjálfu háhýsinu. Að sögn varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu lak ekki mikið vatn niður á næstu hæð.

Í dag verða skemmdir kannaðar. Á hæðinni fyrir neðan þá sem eldurinn geisaði á eru leikfangaverslun og banki en varðstjóri slökkviliðsins telur að miðað við aðstæður hafi hvorki reyk- né vatnsskemmdir verið miklar.

Það voru lögreglumenn í hefðbundnu eftirliti sem áttu leið um, urðu reyksins varir og gerðu viðvart. Að sögn varðstjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gekk greiðlega að rýma turninn. 

Um 40 slökkviliðsmenn börðust við eldinn í gærkvöldi en búið var að ganga úr skugga um að slökkt væri í öllum glæðum um klukkan 2 í nótt.

„Það eru einungis nokkrir dagar síðan við vorum þarna í könnunarheimsókn síðast," sagði Friðjón varðstjóri slökkviliðsins í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í morgun.

Hann sagði að það hjálpaði alltaf að hafa heimsótt byggingar sem þessa því þá væru menn fljótari að átta sig á staðháttum.

Ekki er vitað um eldsupptök en ljóst er að þau urðu á þeim hluta hússins sem enn er á byggingarstigi. 

Tilkynnt var um eld í Turninum laust fyrir klukkan tíu í gærkvöld. Eldurinn kviknaði á annarri hæð og lagði mikinn reyk frá honum.

Fólk var í húsinu, bæði á veitingastað á 19. hæð og líkamsræktarstöð á 12. hæð, en húsið var strax rýmt.

Frá vettvangi í gærkvöld.
Frá vettvangi í gærkvöld. mbl.is/Gylfi Ívar Magnússon.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert