„Mér finnst nú vanta svona hús fyrir ekki bara óperutónleika, við viljum líka fá Rolling Stones,“ sagði Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, eftir að niðurstöður hönnunarsamkeppni um óperuhús í Kópavogi voru kynntar í gær.
Gunnar sagði að áætlanir um að húsið yrði tilbúið árið 2010 stæðust líklega ekki en það yrði þó vonandi fljótlega í kjölfarið á opnun tónlistarhússins í Reykjavík sem opnað verður árið 2009. „Í samkeppninni var talað um 2010 en það verður nú líklega ekki,“ sagði Gunnar.
Tillögur Arkþings ehf. og ALARK Arkitekta verða unnar áfram. Áætlað er að sú vinna taki átta vikur og enn er eftir að „koma fjármögnuninni alveg í höfn“, sagði Gunnar á kynningarfundinum og að vonir stæðu til að húsið yrði tilbúið 2010-2011.
Stefán Baldursson óperustjóri kynnti niðurstöður hönnunarsamkeppninnar og sagði m.a.: „...þessi dagur er merkur áfangi inn í framtíðina því gert er ráð fyrir því að þessi bygging hýsi til frambúðar starfsemi Íslensku óperunnar og bætir þar af leiðandi alla hennar starfsaðstöðu og rekstrarmöguleika.“
Nýja óperuhúsið í Kópavogi kemur til með að hýsa alla starfsemi Íslensku óperunnar.
Niðurstöður hönnunarsamkeppninnar verða til sýnis í Salnum í Kópavogi í a.m.k. þrjár vikur og er sýningin öllum opin. Upplýsingar má jafnframt nálgast á www.kopavogur.is og www.opera.is. | 6