Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa unnið að því í dag að bæta merkingar á þeim kafla Reykjanesbrautarinnar þar sem tíð umferðarslys hafa verið að undanförnu.
Meðal annars hafa verið settar merkingar til að aðskilja akreinar frá Vogavegi og upp á Vogastapa. Þá hafa verið sett upp áberandi merki sem gefa til kynna að umferð sé á móti.
Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, voru settir upp skildir á 2 km kafla í gær, og er 50 metra bil á milli skiltanna, sem eru rauð og hvít.
G. Pétur segir að fleiri skildir hafi verið settir upp í dag og í lok dagsins munu um 4 kílómetrar vera búnir, og þá verði búið að merkja erfiðasta kafla brautarinnar.
Haldið verður áfram með að setja skildina upp eins hratt og mögulegt er en að sögn G. Péturs þarf að panta fleiri til þess að klára allan kaflann sem er um 9 kílómetrar að lengd.