Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að einn af þeim sex erlendu mönnum, sem handteknir voru í tengslum við grófa líkamsárás í Keilufelli í síðasta mánuði, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 5. maí.
Fjórir voru úrskurðaðir í farbann til 5. maí en sjötti maðurinn er frjáls ferða sinna, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Árásin var gerð 22. mars en þá réðust 10-12 menn inn í hús við Keilufell þar sem voru fyrir 10 menn. Mennirnir voru vopnaðir hafnaboltakylfum, járnrörum, exi og öðrum bareflum og réðust á íbúana í húsinu. Hlutu sjö þeirra, allir Pólverjar, mikla áverka víðs vegar um líkamann. Sumir hlutu opin beinbrot og voru sjáanleg djúp för eftir gaddakylfur á líkama þeirra. Einn lá lengi þungt haldinn á gjörgæslu.