Enn er Landeyjahöfn í Bakkafjöru umdeild þótt stjórnvöld séu langt komin í að láta byggingu hennar verða að veruleika. Margskonar ástæður móta hug fólks í málinu, umhverfissjónarmið, öryggissjónarmið og hagkvæmnissjónarmið, auk áhyggna af atvinnulífi Vestmannaeyja.
Í gærkvöldi höfðu 2.324 skrifað undir yfirlýsingu, á vefsíðunni strondumekki.is, gegn Landeyjahöfn. Þar af 1.290 búsettir í Vestmannaeyjum, 492 burtfluttir Eyjamenn og 542 aðrir, samkvæmt upplýsingum frá eigendum vefsíðunnar, en undirskriftalistinn er birtur í heild sinni á síðunni. 4.036 eru búsettir í Vestmannaeyjum. 32% íbúa hafa því skrifað undir en söfnunin stendur þangað til á miðvikudag.
Búið er að bjóða út verkþætti, annars vegar bæði smíði og rekstur á nýrri ferju sem ganga skal milli Heimaeyjar og Bakkafjöru og hins vegar byggingu hafnargarða og vegagerð. 16. apríl eiga niðurstöður að liggja fyrir um hið fyrrnefnda, en 5. júní um hið síðarnefnda.
Leitað var viðbragða þingmanna allra flokka í Suðurkjördæmi og þeir meðal annars inntir álits á söfnuninni og hvort hún væri unnin fyrir gýg. Hvorki náðist í Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra né Lúðvík Bergvinsson, þingmenn Samfylkingarinnar, við vinnslu fréttarinnar.
Árni JohnsenEkki verður aftur snúið
„Það er mjög mikil reiði í Vestmannaeyjum vegna þess að samgönguyfirvöld og fyrrverandi samgönguráðherra brugðust í því að ljúka rannsóknum á jarðgangagerð. Beðið er eftir að því verði lokið hvað sem öðru líður,“ segir Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.Margir sjómenn í Vestmannaeyjum hafi mikla ótrú á hafnargerð við Bakkafjöru. „Siglingastofnun hefur unnið mjög faglega og vel að öllu sem að þeim lýtur við þetta verkefni. Eins vel og Vegagerðin, undir forystu aðstoðarvegamálastjóra, vann alla aðra þætti illa,“ segir Árni. Núverandi samgönguráðherra hafi kokgleypt ófaglegar upplýsingar Vegagerðarinnar þegar ríkisstjórnin ákvað að ráðast í hafnargerð síðasta sumar. „Þetta er miður. Þess vegna hefur ekki verið sátt um þetta verkefni. Það er engu að síður mitt mat að þegar ríkisstjórnin hafði tekið ákvörðun um framkvæmdina varð ekki aftur snúið. Mótmælin koma of seint, en það sem liggur að baki þeim er vel skiljanlegt,“ segir Árni.
Atli GíslasonBúinn að skrifa undir
Atli Gíslason, þingmaður Vinstri-grænna í suðurkjördæmi, hefur sjálfur skrifað undir yfirlýsinguna, á eigin forsendum, og segist styðja framtakið. „Ég taldi bætt flug og ferjusamgöngur til Þorlákshafnar næstbesta kostinn ef göngin reyndust útilokuð,“ segir Atli. Hann tekur undir með þeim sem að söfnuninni standa að aðstæður við Bakkafjöru hafi ekki verið rannsakaðar nógu vel, en segir umhverfisverndarsjónarmið einnig móta afstöðu sína. Þegar sé góð höfn í Þorlákshöfn og akstursleiðin frá Bakka til Reykjavíkur sé drjúg, sem kosti sitt.„Ég held líka að kostnaður af höfninni sé verulega vanmetinn, þarna verði að byggja langa brimgarða út í sjó á endanum og að kostnaður við að halda rennunni opinni verði mjög mikill á hverju ári.“ Hann kveðst fylgjandi því að Vestmannaeyingar fái stórskipahöfn og kveður vel geta farið svo að þeir missi spón úr aski sínum upp í Bakkafjöru ef af höfninni verður. Atli telur ekki of seint að snúa af leið og hætta við Bakkafjöruhöfn.
Guðni ÁgústssonGetur veikt stöðu þeirra
„Ég er dálítið hissa á þessari söfnun og mér finnst hún fara heldur seint í gang. Það getur veikt stöðu Vestmannaeyja mjög í þessu máli að hefja þessa umræðu í rauninni eftir á. Ég hef áhyggjur af því að þetta muni skapa upplausn og vanda fyrir Vestmannaeyinga,“ segir Guðni Ágústsson, þingmaður og formaður Framsóknarflokksins. Hann hafi lengi talið nýjan Herjólf og góðar flugsamgöngur lausnina, en niðurstaðan sé Bakkafjöruhöfn. Eyjamenn hafi ekki tekið af skarið áður en samstaða tók að myndast um þá lausn. „Þeir létu afskrifa jarðgöngin án þess að fá fjármagn í að klára rannsóknir á þeirri lausn.“Hann telur stórskipahöfn í Eyjum góða hugmynd en hugur Eyjamanna sjálfra ráði þar mestu um. Áhyggjur þeirra af því að þjónusta og hafnarstarfsemi færist í Bakkafjöru með höfninni segir Guðni ekki nýjar af nálinni, en dæmir ekki um hvort þær eigi við rök að styðjast. Tilraunir til að koma upp stuttri siglingaleið til Vestmannaeyja séu gerðar í þeirri trú að byggð þar styrkist þar með.
Grétar Mar JónssonKomið undir bæjarstjórn
„Vandamálið er að 300 metrum utan við fyrirhugaða höfn er rif, sem brýtur á í tiltölulega góðu veðri. Þess vegna hefði ég haldið að við þessa hafnargerð þyrftu brimvarnargarðar að fara miklu lengra út. Þá erum við ekki að tala um 3,6 milljarða kostnað, heldur 16-18 milljarða, samkvæmt skýrslu Gísla Viggóssonar hjá Siglingamálastofnun,“ segir Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslynda flokksins. Hann segir undirskriftasöfnunina ansi seint fram komna, en „það er undir bæjarstjórninni í Vestmannaeyjum komið hvernig hún bregst við. Ef hún skiptir um skoðun í málinu væri mögulega hægt að stoppa þetta af núna“.Grétar segist fylgjandi stórskipahöfn í Vestmannaeyjum og hefði kosið hraðskreiðari ferju, jafnvel tvær, sem sigli milli Heimaeyjar og Þorlákshafnar, sem framtíðarlausn á samgöngum til Eyja. Þá segir hann áhyggjur af flutningi starfsemi þaðan upp á land rökréttar. Ef byrjað sé á Landeyjahöfn yfirleitt verði hún efld í framtíðinni.