Enn er Landeyjahöfn í Bakkafjöru umdeild þótt stjórnvöld séu langt komin í að láta byggingu hennar verða að veruleika. Margskonar ástæður móta hug fólks í málinu, umhverfissjónarmið, öryggissjónarmið og hagkvæmnissjónarmið, auk áhyggna af atvinnulífi Vestmannaeyja.
Í gærkvöldi höfðu 2.324 skrifað undir yfirlýsingu, á vefsíðunni strondumekki.is, gegn Landeyjahöfn. Þar af 1.290 búsettir í Vestmannaeyjum, 492 burtfluttir Eyjamenn og 542 aðrir, samkvæmt upplýsingum frá eigendum vefsíðunnar, en undirskriftalistinn er birtur í heild sinni á síðunni. 4.036 eru búsettir í Vestmannaeyjum. 32% íbúa hafa því skrifað undir en söfnunin stendur þangað til á miðvikudag.
Búið er að bjóða út verkþætti, annars vegar bæði smíði og rekstur á nýrri ferju sem ganga skal milli Heimaeyjar og Bakkafjöru og hins vegar byggingu hafnargarða og vegagerð. 16. apríl eiga niðurstöður að liggja fyrir um hið fyrrnefnda, en 5. júní um hið síðarnefnda.
Leitað var viðbragða þingmanna allra flokka í Suðurkjördæmi og þeir meðal annars inntir álits á söfnuninni og hvort hún væri unnin fyrir gýg. Hvorki náðist í Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra né Lúðvík Bergvinsson, þingmenn Samfylkingarinnar, við vinnslu fréttarinnar.
Árni JohnsenEkki verður aftur snúið
Margir sjómenn í Vestmannaeyjum hafi mikla ótrú á hafnargerð við Bakkafjöru. „Siglingastofnun hefur unnið mjög faglega og vel að öllu sem að þeim lýtur við þetta verkefni. Eins vel og Vegagerðin, undir forystu aðstoðarvegamálastjóra, vann alla aðra þætti illa,“ segir Árni. Núverandi samgönguráðherra hafi kokgleypt ófaglegar upplýsingar Vegagerðarinnar þegar ríkisstjórnin ákvað að ráðast í hafnargerð síðasta sumar. „Þetta er miður. Þess vegna hefur ekki verið sátt um þetta verkefni. Það er engu að síður mitt mat að þegar ríkisstjórnin hafði tekið ákvörðun um framkvæmdina varð ekki aftur snúið. Mótmælin koma of seint, en það sem liggur að baki þeim er vel skiljanlegt,“ segir Árni.
Atli GíslasonBúinn að skrifa undir
„Ég held líka að kostnaður af höfninni sé verulega vanmetinn, þarna verði að byggja langa brimgarða út í sjó á endanum og að kostnaður við að halda rennunni opinni verði mjög mikill á hverju ári.“ Hann kveðst fylgjandi því að Vestmannaeyingar fái stórskipahöfn og kveður vel geta farið svo að þeir missi spón úr aski sínum upp í Bakkafjöru ef af höfninni verður. Atli telur ekki of seint að snúa af leið og hætta við Bakkafjöruhöfn.
Guðni ÁgústssonGetur veikt stöðu þeirra
Hann telur stórskipahöfn í Eyjum góða hugmynd en hugur Eyjamanna sjálfra ráði þar mestu um. Áhyggjur þeirra af því að þjónusta og hafnarstarfsemi færist í Bakkafjöru með höfninni segir Guðni ekki nýjar af nálinni, en dæmir ekki um hvort þær eigi við rök að styðjast. Tilraunir til að koma upp stuttri siglingaleið til Vestmannaeyja séu gerðar í þeirri trú að byggð þar styrkist þar með.
Grétar Mar JónssonKomið undir bæjarstjórn
Grétar segist fylgjandi stórskipahöfn í Vestmannaeyjum og hefði kosið hraðskreiðari ferju, jafnvel tvær, sem sigli milli Heimaeyjar og Þorlákshafnar, sem framtíðarlausn á samgöngum til Eyja. Þá segir hann áhyggjur af flutningi starfsemi þaðan upp á land rökréttar. Ef byrjað sé á Landeyjahöfn yfirleitt verði hún efld í framtíðinni.