Pólskur karlmaður, sem grunaður er um aðild að morði í heimalandi sínu, sagðist í samtali við fréttastofu Útvarpsins vera saklaus, en maðurinn dvelur hér á landi. Sagðist hann munu gefa sig fram við lögreglu verði gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum.
Maðurinn, sem heitir Przemyslaw Plank kom hingað til lands í september. Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra hefur verið í daglegu sambandi við pólsk lögregluyfirvöld og er reiknað með að alþjóðleg handtökuskipun verði gefin út á hendur Plank í vikunni.
Plank sagðist í fréttum Útvarps hafa verið handtekinn vegna málsins í Póllandi en sleppt þegar hann hafi sýnt fram á fjarvistarsönnun. Hann furðar sig á því að hann skuli vera eftirlýstur í Póllandi vegna morðsins.
Þá sagðist hann ekki vita til þess, að Pólverjar hér á landi hafi krafið samlanda sína um verndartolla og beitt þá ofbeldi sem ekki greiði. Sjálfur segist hann ekki hafa tekið þátt í slíku og hafi ekki brotið íslensk lög.