Pólverjinn hringdi á undan sér

Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra barst í gær handtökubeiðni frá skrifstofu alþjóðalögreglunnar Interpol í Varsjá í Póllandi vegna Pólverjans sem dvelst hér á landi og er grunaður um aðild að hrottalegu morði í heimalandi sínu. Þetta staðfestir Smári Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá alþjóðadeild.

Eftir að þetta var kunngert hringdi maðurinn í lögreglu og lét vita af því að hann myndi gefa sig fram á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Þangað mætti hann svo rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöldi, þar sem hann var handtekinn. Tekin var af honum skýrsla og hann því næst vistaður í fangageymslu. Í dag verður krafist gæsluvarðhalds yfir manninum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu kom nafn mannsins fyrst til skoðunar þegar hann var talinn hafa verið í hópi manna sem ruddust inn í íbúð í Reykjavík og ógnuðu íbúum. Íbúarnir vildu ekki kæra, en farið var að spyrjast fyrir um manninn í kjölfar þessa.

Pólsk stjórnvöld biðja um framsal

Framsalsbeiðni frá pólskum stjórnvöldum barst dómsmálaráðuneytinu strax í gær, að sögn Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, í viðtali við fréttavef Morgunblaðsins.

Björn segir þar að Ísland hafi samið við ESB um aðild að evrópsku handtökutilskipuninni. Verið sé að semja frumvarp um nauðsynlegar lagabreytingar í samræmi við hana. Svo verði samningurinn lagður fram til fullgildingar. Björn telur þó ekki að hér á landi sé að finna sérstakt skjól fyrir erlenda afbrotamenn á Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem í stjórnkerfinu sé tekið með skjótum hætti á þeim framsalsbeiðnum sem stjórnvöldum berast að utan. „Þetta er ekki rétt þegar litið er á hversu fljótt er brugðist við ef tilmæli koma. Það getur vel verið að einhver hafi talið þessum mönnum trú um að þeir hafi meira skjól hér, en ég vil alls ekki að íslensk löggjöf sé þannig eða sé túlkuð þannig,“ segir Björn.

Reglur um framsal einfaldaðar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka