Meintur höfuðpaur neitar að tjá sig um Keilufellsárás

Húsið við Keilufell þar sem árásin var gerð.
Húsið við Keilufell þar sem árásin var gerð.

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður, sem grunaður er um að hafa tekið þátt í hrottalegri árás á íbúa í húsi við Keilufell í Reykjavík um páskana sæti áframhaldandi gæsluvarðhald til 5. maí. Um tíma sátu sex í gæsluvarðhaldi vegna málsins en fimm hefur verið sleppt og fjórir þeirra úrskurðaðir í farbann.

Sá sem enn situr í gæsluvarðhaldi er Pólverji, Tomasz Krzysztof Jagiela, sem lögreglan lýsti eftir og sem gaf sig síðan fram í Reykjanesbæ í lok mars. Fram kemur í greinargerð lögreglu, að maðurinn hafi neitað að tjá sig um málið en sagt að hann hafi verið einn heima hjá sér daginn þegar árásin var gerð. Þá hafi hann neitað að tjá sig um tengsl við aðra sakborninga málsins og litlar upplýsingar viljað gefa lögreglu.

Nafn mannsins hafi hins vegar komið fram á upphafsstigum rannsóknar en fjórir úr hópnum, sem var í íbúðinni í Keilufelli, báru kennsl á hann. Einn þeirra, sem ráðist var á, sagðist hafa setið í sófa inni í stofu íbúðarinnar þegar að hann hafi séð hvar Jagiela stóð í dyrunum og hélt á exi. Hafi hann komið fyrstur til mannanna þar sem að þeir sátu í sófanum og slegið til eins mannanna þar sem að hann lá sofandi í rúmi sínu.

Í framburði annars brotaþola kom fram að Jagiela hafi reynt að berja hann með einhverju áhaldi í höfuðið en hann hafi þá náð að bera hendur fyrir sig. Maðurinn, sem fyrir árásinni varð, hlaut opið beinbrot á vinstri hendi í árásinni og brotnaði einnig á þeirri hægri.

Þriðji maðurinn bar, að hann hafi séð Jagiela inni í íbúðinni þar sem hann hélt á exi. Hann hafi svo snúið sér við og þá verið sleginn í höfuðið. Sá maður hlaut opið sár á höfði sem þurfti að sauma með 12 sporum. 

Lögregla segir, að símagögn beri með sér, að Jagiela hafi verið í stöðugu símasambandi við aðra sakborninga í málinu, bæði fyrir og eftir árásina. Vitni hafi greint frá því að hann hafi fyrstur gengið inn í íbúðina og heilsað með orðunum „witam” og lýsingar þeirra þyki bera með sér að hann sé höfuðpaur í málinu, hafi fyrstur gengið inn í íbúðina og aðrir komið í kjölfarið.

Þá beri framburðir brotaþola með sér að maðurinn  hafi verið gengið mjög harkalega fram. Hann hafi verið vopnaður exi og ráðist að sofandi manni og slegið hann í höfuð en slík atlaga sé lífshættuleg og megi telja að hending ein hafi ráðið því að ekki fór enn verr.

Lögreglan segir, að árásin þyki hafa verið heiftúðleg og sérstaklega hættuleg og þyki sýnu alvarlegri þegar litið sé til þess, að svo virðist sem atlagan hafi verið skipulögð. Árásarmenn hafi komið akandi og verið búnir vopnum og lífshættulegum bareflum. Af framburðum brotaþola megi ráða að mennirnir hafi ráðist til atlögu um leið og þeir voru komnir inn í íbúðarhúsnæðið. Áverkar sýni að árásarmenn hafi gengið mjög hart fram og beitt vopnum sínum þannig að brotaþolar hafi verið í lífshættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert