Kristjáni L. Möller, samgönguráðherra, var í dag afhentur listi með 3172 undirskriftum þeirra sem mótmæla vilja fyrirhugaðri byggingu ferjulægis í Bakkafjöru. Hópur undir forystu Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum stóð fyrir söfnuninni sem stóð yfir í viku á netinu.
Að sögn hópsins skrifuðu 42,8% Vestmannaeyinga, 18 ára og eldri, undir sem verði að teljast skýr krafa um að áform um byggingu ferjulægis verði afturkölluð.
Hópurinn vill að þegar verði hafinn undirbúningur að byggingu á öflugri og hraðskreiðri Vestmannaeyjaferju auk stórskipahafnar við Eiðið.