Ekki boðlegt borgarbúum

„Það er ekki hægt að bjóða borgarbúum upp á þetta lengur,“ segir Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi VG í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sem gagnrýnir harðlega vinnubrögð borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í málefnum Reykjavík Energy Invest.

Málefni REI voru rædd á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur í sem lauk nú á fjórða tímanum í dag. Að sögn stjórnarformanns OR var lögð fram tillaga um að það verði unnin úttekt og verðmat á REI og verkefnum þess. Tillagan var ekki samþykkt en verður rædd áfram. 

Svandís segir tillöguna hvorki hafa verið í útsendum gögnum né aðgengileg þannig að stjórnin geti tekið yfirvegaða afstöðu til hennar. „Þetta eru í raun og veru alveg sömu vinnubrögðin og voru viðhöfð í REI-málinu svokallaða í haust,“ segir hún.

Kjartan Magnússon, stjórnarformaður OR, segist reikna með því að REI verði áfram í eigu OR. „Það eru hins vegar fjölmörg verkefni þarna innanborðs. Við viljum fá að vita um verðmæti þessara verkefna, og þá hugsanlega með það í huga að selja þau. Fá fjárfesta inn með þeim hætti,“ segir Kjartan.

„Mér finnst aðalatriðið vera það að lágmarka áhættuna. Við ætlum ekki að taka stórfé úr Orkuveitu Reykjavíkur. Við ætlum ekki að taka stórfé af almannafé til þess að setja í áhættufjárfestingar úti í heimi,“ segir hann.

„Málið er með miklum ólíkindum. Eina ferðina enn þá sér maður að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er með svo vanreifuð og vanbúin mál - vegna þess hversu mikil óeining er í þeirra hópi - að það er bara komið að því að þetta fólk verður að fara pakka saman og snúa sér að öðru,“ segir Svandís Svavarsdóttir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert