Tillaga um sölu á REI?

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Fulltrúar meirihlutans í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur munu í dag leggja fram tillögu um að hefja undirbúning að sölu Reykjavik Energy Invest, dótturfélags OR. Þetta er fullyrt í Fréttablaðinu í dag og segir blaðið, að samkomulag hafi náðst um þetta innan meirihlutans. 

Borgarfulltrúar meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks virðast þó ekki á eitt sáttir um málið ef marka má ummæli þeirra undanfarna daga. Á borgarstjórnarfundi sl. fimmtudag sagði Kjartan Magnússon, stjórnarformaður REI og Orkuveitunnar, að til greina kæmi að fá fjárfesta inn í REI sem yrði þá að hlutafélagi. Þessu hafnaði Ólafur F. Magnússon borgarstjóri hins vegar alfarið í Kastljósi RÚV í gærkvöldi.

„Ég get lofað borgarbúum því að á meðan við eigum REI verði það í 100% eigu almennings,“ sagði borgarstjóri m.a. í Kastljósi og gat ekki tekið undir orð Kjartans. „Nei, það get ég ekki. Vegna þess að það segir klárlega í niðurstöðum stýrihópsins um REI og Orkuveituna að REI skuli vera 100% í eigu almennings.“

Ólafur sagðist ennfremur telja misskilning á bak við orð Kjartans sem hann þyrfti að skýra betur. „[En] ég get ekki tekið undir neitt annað en það sem stýrihópurinn gaf út og þessi meirihluti er sammála stýrihópnum.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka