Stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur lauk nú rétt fyrir klukkan 16 en hann hófst klukkan 11 í morgun. „Við lögðum fram tillögu um það að það verði unnin úttekt og verðmat á fyrirtækinu [REI) og verkefnum þess,“ sagði Kjartan Magnússon, stjórnarformaður OR, eftir fundinn.
„Tillagan var lögð fram og hún rædd nokkuð ítarlega og verður rædd áfram. Hún var ekki samþykkt,“ segir Kjartan.
Kjartan segist reikna með því að REI verði áfram í eigu OR. „Það eru hins vegar fjölmörg verkefni þarna innanborðs. Við viljum fá að vita um verðmæti þessara verkefna, og þá hugsanlega með það í huga að selja þau. Fá fjárfesta inn með þeim hætti,“ segir Kjartan.
„Mér finnst aðalatriðið vera það að lágmarka áhættuna. Við ætlum ekki að taka stórfé úr Orkuveitu Reykjavíkur. Við ætlum ekki að taka stórfé af almannafé til þess að setja í áhættufjárfestingar úti í heimi.“