Mahmud Abbas, forseti Palestínumanna, kom til Bessastaða ásamt föruneyti á 11. tímanum í dag þar sem hann mun m.a. ræða við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Gert er ráð fyrir að Abbas haldi stuttan blaðamannafund eftir viðræðurnar við Ólaf Ragnar.
Í föruneyti Abbas eru m.a. Ahmed Qureia, fyrrverandi forsætisráðherra Palestínumanna, og Saeb Erekat, aðalsamningamaður heimastjórnar Palestínumanna.
Abbas mun sitja hádegisverð á Bessastöðum en að honum loknum mun hann eiga fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra í Ráðherrabústaðnum.
Abbas kom hingað til lands laust eftir miðmætti í nótt en hann er á leið til Washington í Bandaríkjunum til fundar við George W. Bush, forseta.