Frummatsskýrsla lögð fram og kynnt

Vegagerðin og Siglingastofnun hafa hafið kynningu á frummatsskýrslu fyrir byggingu Bakkafjöruhafnar, vegtengingar að henni frá hringveginum og efnistöku vegna framkvæmda á Seljalandsheiði og úr Markarfljótsaurum, samkvæmt Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar. Fram kemur að undirbúningur miðist við að framkvæmdir geti hafist í ár og að höfnin verði tekin í notkun 2010, en kostnaðaráætlun hljóðar upp á 5,6 milljarða króna.

Stýrihópur samgönguráðherra hóf störf sumarið 2006 og var honum ætlað að vinna að forathugun og eftir atvikum forhönnun ferjuhafnar í Bakkafjöru. Hann átti að taka mið af tillögum starfshóps um samgöngur til Vestmannaeyja, en starfshópurinn lagði meðal annars til að bygging ferjuhafnar í Bakkafjöru yrði skoðuð nánar. Helsta niðurstaða stýrihópsins er að gerð hafnar í Bakkafjöru sé vel möguleg og að áhrif ferjusiglinga milli Bakkafjöru og Vestmannaeyja séu mjög jákvæð.

Tilgangurinn með framkvæmdunum er að bæta almenningssamgöngur milli lands og Vestmannaeyja. Ferðatími á sjó milli Eyja og Þorlákshafnar er 2:45 klst. og hann styttist í 30 mínútur en vegalengdin styttist úr 74 km í 13 km. Gert er ráð fyrir þremur til sex ferðum á dag í stað tveggja ferða nú.

Miklar framkvæmdir

Nýr vegur

Mikið fyllingarefni þarf til verksins eða um 1.135.000 rúmmetra og þar af um 500.000 rúmmetra af grjóti. Það verður unnið úr námu á Seljalandsheiði en önnur efnistaka verður úr Markarfljótsaurum.

Mikill foksandur er á svæðinu og er vinna byrjuð við mikla uppgræðslu á Landeyjasandi til þess að koma í veg fyrir sandfok á veg, bíla og hafnarmannvirki. Einkum er um að ræða sáningu melgresis auk fleiri grastegunda og lúpínu en einnig verða settar upp fokgirðingar og heyrúllugarðar til að hefta sand.

Gert er ráð fyrir að byrjað verði að flytja efni af Seljalandsheiði í sumar og flutningunum ljúki haustið 2009.

Siglingastofnun og Vegagerðin hafa birt auglýsingu þar sem óskað er eftir tilboðum í framkvæmdirnar. Þar kemur fram að gerð varnargarða við Ála og Markarfljót skuli lokið 1. nóvember í ár. Gerð brúar á Ála skuli lokið 1. maí 2009, uppmokstri úr hafnarkví skuli lokið 1. júlí á næsta ári, brimvarnargarðar skulu komnir í fulla lengd fyrir 1. október 2009 og verkinu skuli að fullu lokið 1. júlí 2010.

Áætlað er að kostnaður vegna ferjuhafnar, ferju og tengdra mannvirkja nemi 5,6 milljörðum króna, en í samgönguáætlun 2007-2010 er gert ráð fyrir fjárveitingum við höfn og vegagerð á svæðinu. Samkvæmt fjárlögum líðandi árs er gert ráð fyrir að verja 400 milljónum til byggingar nýs vegar niður með Markarfljóti.

Umhverfisáhrif

Í skýrslunni er greint frá rannsókn Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Bifröst á áhrifum ferju um Bakkafjöruhöfn á byggð í Vestmannaeyjum og á öðrum svæðum Suðurlands. Auk styttri ferðatíma er meðal annars nefndur lægri ferðakostnaður, styrking innviða á Suðurlandi og stuðningur við vöxt ferðaþjónustu á svæðinu.

Frummatsskýrslan liggur frammi til kynningar til 7. maí 2008 á skrifstofum sveitarfélaganna Rangárþings eystra og Vestmannaeyjabæjar, hjá Skipulagsstofnun og í Þjóðarbókhlöðunni. Sama dag rennur út frestur almennings til að skila athugasemdum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert