Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínu, fundaði með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í dag. Abbas lýsti yfir ánægju með að vera kominn til landsins þar sem leiðtogafundur Bandaríkjanna og Sovétríkjanna fór fram árið 1986. Hann segir að Ísland geti nú líkt og þá gegnt mikilvægu friðarhlutverki.
Ólafur Ragnar og Abbas ræddu ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og stöðu friðarviðræðna Palestínumanna og Ísraela. Þá ræddu þeir um að efla tengsl ríkjanna og hvernig Ísland geti komið að friðarviðræðunum og veitt íbúum Palestínu efnahagsaðstoð. Abbas segir að þó að Ísland sé smáríki þá sé stærðin ekki aðalatriðið. Ísland geti haft mikil áhrif líkt og leiðtogafundurinn milli þeirra Ronalds Reagans, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og Míkhaíls Gorbatsjovs, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna, hafi sýnt fram á.
„Hvað varðar stjórnmál á alþjóðavísu þá er leiðtogafundurinn í Reykjavík glöggt dæmi um það að stærð eða íbúafjöldi skiptir ekki máli þegar rætt er um þjóð. Mikilvægi þjóðar byggir á þeirri skuldbindingu að geta átt í friðsömum samskiptum við önnur ríki í heiminum,“ segir Abbas.
„Við teljum að Ísland geti haft hlutverki að gegna. Ekki síst í ljósi þeirra staðreynda að landið er lítið, það ógnar ekki neinum og það er reiðubúið, eftir því sem mér skilst á orðum forsetans, að stuðla að því að friður náist milli Palestínu og Ísraels. Fyrir þetta erum við afar þakklát,“ sagði Abbas.
Abbas fer frá Íslandi í kvöld og heldur áleiðis til Washington í Bandaríkjunum þar sem hann mun eiga fund með George W. Bush Bandaríkjaforseta.